Beint í efni

Ályktun frá stjórn Ljósmæðrafélags Íslands

Ljósmæður hafa áhyggjur af auknum stríðsátökum og ofbeldi í heiminum

Á stjórnarfundi Ljósmæðrafélags Íslands þann 27. ágúst 2025 var eftirfarandi ályktun samþykkt :

Ljósmæðrafélag Ísland fordæmir öll þau stríðsátök sem eiga sér stað í heiminum í dag. Konur, börn og viðkvæmt fólk er svelt, sært, pyntað og drepið. Heilbrigðisstarfsmenn, þar meðtaldar ljósmæður, starfa á mörgum stöðum við algjörlega óásættanlegar aðstæður jafnvel launalaust, þar sem að þeir eru í hættu á að hljóta skaða af og jafnvel láta lífið.

Alþjóðleg mannúðarlög sem leggja áherslu á vernd almennings, kvenna og barna, og að heilbrigðisstarfsfólk, hjálparstarfsfólk og sjúkrahús fái sérstaka vernd verður að virða.

Ljósmæður munu alltaf standa með og annast þá sem þurfa á okkur að halda og við viljum beita okkur fyrir þvi að ljósmæður og annað heilbrigðisstarfsfólk hvar sem er í heiminum geti veitt viðeigandi aðstoð án þess að vera sjálft í hættu.

Sem aðildarfélag stöndum við á bak við yfirlýsingu Alþjóðasambands ljósmæðra (ICM) um átökin í Palestínu. Við treystum því að íslensk stjórnvöld muni hér eftir sem hingað til beita sér af fullum þunga fyrir lausn þessarar og annarra átaka.