Þjónustustaðir
Þjónusta eftir landshlutum
Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins starfrækir 19 heilsugæslustöðvar, 15 innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis (HH) og fjórar einkareknar heilsugæslustöðvar. Fæðingarstaðir umdæmisins eru tveir utan heimafæðinga, það er fæðingarstofa Bjarkarinnar og Fæðingarvakt Landspítala. Í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins sjá ljósmæður alfarið um að taka strok frá leghálsi til skimunar á leghálskrabbameini.
Meðgönguvernd
Ljósmæður veita meðgönguvernd á öllum 19 heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins. Þær sinna ekki eingöngu meðgönguvernd heldur einnig ungbarnavernd, foreldrafræðslu, ráðgjöf og móttöku. Á Göngudeild mæðraverndar LSH fer fram meðgönguvernd fyrir konur með sérstök vandamál á meðgöngu. Þar er einnig starfrækt göngudeildarþjónusta sem konum er vísað til vegna sértækra rannsókna eða vandamála á meðgöngu. Ómskoðanir og sérhæfðar fósturrannsóknir eru gerðar á Fósturgreiningardeild LSH þar sem ljósmæður og fæðingalæknar starfa. Meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítala sinnir konum sem þurfa innlagnar við á meðgöngu.
Fæðingarhjálp
Fæðingarþjónusta í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins fer fram í heimahúsi, á fæðingarstofu Bjarkarinnar og á Fæðingarvakt Landspítala. Hraustum konum í eðlilegri meðgöngu stendur til boða að fæða heima eða á fæðingarstofu Bjarkarinnar. Þá er veitt samfelld þjónusta ljósmæðra frá 34. viku meðgöngu þar til barnið er 7-10 daga gamalt. Fæðingarvaktin er stærsta fæðingardeild landsins. Þar er veitt þjónusta við konur með þekkta áhættuþætti í fæðingu eða sérstök vandamál sem krefjast sérhæfðrar umönnunar í fæðingu. Langflestar fæðingar á deildinni eru eðlilegar og þar fæða einnig konur sem vilja eiga kost á mænurótardeyfingu í fæðingu, en tíðni þeirrar deyfingar hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár.
Sængurlega
Flestar konur sem útskrifast heim af Landspítala fara snemma heim og þiggja heimaþjónustu ljósmæðra. Sængurlega á Meðgöngu- og sængurlegudeild er ætluð þeim konum sem farið hafa í keisaraskurð og þeim konum sem hafa vandamál eftir fæðingu.
Brjóstagjafaráðgjafar eru starfandi á Landspítala og njóta konur sem liggja þar inni góðs af því. Einnig sinna þeir vitjunum í heimahús fyrstu 14 dagana eftir fæðingu.Ljósmæðraþjónusta utan stofnana
Viðamesta ljósmæðraþjónusta utan stofnana á höfuðborgarsvæðinu er tvímælalaust heimaþjónusta ljósmæðra í sængurlegu auk þjónustu við heimafæðingar.
Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins
Fæðingarþjónusta á LSH - Video.- neðst á síðu
Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) veitir meðgönguvernd á átta heilsugæslustöðvum í umdæminu. Innan hennar er fæðingardeild á Akranesi þar sem meðal annars eru gerðar ómskoðanir og sérhæfð þjónusta fæðinga- og kvensjúkdómalæknis er í boði.
Meðgönguvernd
Ljósmæður veita meðgönguvernd á sex af átta heilsugæslustöðvum HVE, auk þess að bjóða uppá skimanir fyrir leghálskrabbameini. Á Hólmavík og í Búðardal er ekki starfandi ljósmóðir en þaðan er konum oftast vísað til ljósmóður í Borgarnesi eða á Akranesi undir lok meðgöngu. Foreldrafræðslunámskeið eru haldin reglulega á vegum heilsugæslu HVE Akranesi og sjá ljósmæður um þá fræðslu. Auk þess er sérhæfð brjóstagjafaráðgjöf í boði á Akranesi.
Fæðingarhjálp
Kvennadeild HVE annast fæðingarhjálp umdæmisins en lítið hefur verið um fyrirfram ákveðnar heimafæðingar. Tvennskonar þjónusta fer fram á dag- og legudeild. Á dagdeild leita konur ýmist af eigin frumkvæði eða samkvæmt tilvísun frá heilsugæslustöðvum umdæmisins. Á legudeild er veitt almenn þjónusta og bráðaþjónusta vegna kvensjúkdóma, meðgöngu, fæðinga og sængurlegu.
Ljósmóðir starfandi á Snæfellsnesi skoðar konur í fæðingu áður en þær yfirgefa heimili sitt og fylgir þeim gjarnan á fæðingardeild á Akranesi. Sé fæðing langt komin og sýnt að ekki náist á fæðingardeild, tekur ljósmóðir á móti í heimabyggð. Árlega fæða um fimm konur í umdæminu óvænt heima hjá sér eða á leið á fæðingardeild.
Færst hefur í vöxt að konur búsettar á höfuðborgarsvæðinu kjósi að fæða á HVE Akranesi (25-30% allra fæðinga á HVE). Svo til allar þessar konur útskrifast heim innan 36 klst. og þiggja heimaþjónustu ljósmóður á höfuðborgarsvæðinu.Sængurlega
Í ljósi þess að umdæmið er víðfemt hafa ljósmæður HVE lagt áherslu á að konur hafi val um að liggja sængurlegu, en um 20-25% þeirra koma langt að og hafa ekki kost á heimaþjónustu ljósmóður í sinni heimabyggð. Sífellt fleiri konur búsettar á Akranesi og í nærsveitum útskrifast nú innan 36 klst. frá fæðingu og njóta heimaþjónustu ljósmóður eða um 30% kvenna.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST) veitir meðgönguvernd á Ísafirði og á Patreksfjörð kemur ljósmóðir einu sinni í mánuði. HVEST á Ísafirði er eini fæðingarstaðurinn í umdæminu.
Meðgönguvernd
Ljósmóðir á Ísafirði veitir meðgönguvernd á vegum HVEST. Til hennar koma konur frá Ísafirði, Þingeyri, Suðureyri og Flateyri ásamt sveitum í kring. Þar eru stöku sinnum gerðar ómskoðanir, þegar ljósmóðir með þar til gerða menntun kemur á Ísafjörð til að gera sónarskoðanir. Vegna samgöngubóta síðustu ára eru samgöngur tiltölulega greiðar milli þessara þéttbýla. Ljósmóðir er á bakvakt á Ísafirði allan sólarhringinn.
Suðurfirðir Vestfjarða hafa verið ljósmóðurlausir í fjölda ára og hafa læknar veitt meðgönguvernd þar. Nú er hins vegar búið að ráða ljósmóður sem kemur á Patreksfjörð einu sinni í mánuði.
Fæðingarhjálp
Ljósmóðir á Ísafirði sinnir fæðandi konum og skurðlæknir er á vakt allan sólarhringinn. Konur úr heimabyggð fæða á Ísafirði og yfir sumartímann sækja sumar konur af sunnanverðum Vestfjörðum fæðingarhjálp þangað. En vegna ófærðar er ekki hægt að treysta á samgöngur til Ísafjarðar frá suðurfjörðum yfir vetrartímann og nærtækasta barneignarþjónusta m.t.t. samgangna því í Reykjavík í 400 km fjarlægð. Ekki er óalgengt að konur þurfi að flytja búferlum í nokkrar vikur og bíða fæðingar í leiguhúsnæði eða inni á ættingjum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er bæði mjög kostnaðarsamt, tekjuskerðing fyrir maka og mikið rask á fjölskyldulífi, skólagöngu barna og fleira mætti telja.
Enginn fæðingalæknir er starfandi í umdæminu og því sjá ljósmæður um sérhæfða þjónustu við barnshafandi konur í samráði við lækna staðarins og Kvenna- og barnasvið LSH. Komi til sjúkraflugs til Reykjavíkur er sjúkraflugvélin staðsett á Akureyri, mönnuð heilbrigðisstarfsfólki og ljósmóður þaðan.Sængurlega
Flestar konur útskrifast snemma heim eftir fæðingu og þiggja heimaþjónustu ljósmóður. Einnig sinnir ljósmóðir ungbarnavernd með heimavitjunum fyrsta mánuðinn eftir fæðingu. Sængurlega kvenna af sunnanverðum Vestfjörðum fer fram fjærri heimili þeirra, gjarnan á höfuðborgarsvæðinu; inni á heimilum ættingja, í leiguhúsnæði eða á sjúkrastofnun.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) starfrækir 6 starfstöðvar og 12 sel út frá þeim. HSN Blönduósi með sel á Skagaströnd, HSN Sauðárkróki með sel á Hofsósi, HSN Akureyri með sel á Grenivík og í Grímsey, HSN Dalvík með sel í Hrísey, HSN Fjallabyggð með starfsemi á Siglufirði og í Ólafsfirði, HSN Húsavík með sel á Laugum, Reykjahlíð, Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn. Fæðingardeild umdæmisins er á HSN Akureyri og er hún stærsta fæðingardeild landsins utan höfuðborgarsvæðisins.
Meðgönguvernd
Meðgönguvernd er veitt af ljósmæðrum á öllum starfsstöðvum umdæmisins, það er á Akureyri, Blönduósi, Dalvík, Fjallabyggð, Húsavík og á Sauðárkróki. Á HSN Akureyri er veitt meðgönguvernd fyrir konur í áhættumeðgöngu, þar eru gerðar ómskoðanir og sérhæfðar fósturskimanir, auk þess sem boðið er uppá foreldrafræðslunámskeið.
Fæðingarhjálp
Norðurlandsumdæmi er stórt og dreifbýlt, vegalengdir eru miklar og yfir fjallvegi að fara. Aðeins einn fæðingarstaður eru í umdæminu, á Sjúkrahúsinu á Akureyri, fyrir utan heimafæðingar sem eru nokkrar á ári. Árið 2010 var sólarhringsþjónusta ljósmóður lögð niður á Sauðárkróki og verða konur þar því að sækja fæðingarþjónustu til Akureyrar utan dagvinnutíma. Rúmlega þriðjungur kvenna sem fæða á Akureyri eru þaðan, aðrar hafa um mislangan veg að fara. Að sumarlagi koma flestar konur í eigin bíl þegar sótt byrjar en á veturna koma konur fyrir fæðinguna til dvalar á Akureyri. Því fylgir oft mikil röskun á fjölskyldulífi og þarf maki jafnvel að nýta feðraorlof sitt til þessa eða taka frí frá vinnu með tilheyrandi tekjumissi. Óöryggi skapast hjá konum þar sem erfitt er fyrir þær að meta hvenær tími sé kominn til að leggjast í ferðalög til Akureyrar.
Sængurlega
Sængurkonum stendur til boða að dvelja sængurlegu á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri. Mismunandi er hversu langan tíma konur dvelja á fæðingadeildinni eftir fæðingu, en margar nýta möguleikann á heimaþjónustu ljósmæðra. Í sumum tilvikum er einnig hægt að bjóða upp á sængurlegu eða heimaþjónustu ljósmæðra í heimabyggð.
Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) starfrækir átta heilsugæslustöðvar í umdæminu og þrjú sel út frá þeim. Heilsugæslustöðvar eru staðsettar í þéttbýliskjörnum á Vopnafirði, Borgarfirði eystri (sel), Seyðisfirði, Egilsstöðum, Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði (sel), Breiðdalsvík (sel) og Djúpavogi. Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað er eini fæðingarstaðurinn í heilbrigðisumdæminu og jafnframt eini staðurinn þar sem sólarhringsbakvakt ljósmóður er til staðar. Umdæmið er mjög dreifbýlt og samgöngur milli staða liggja oftar en ekki yfir fjallvegi, sem geta verið erfiðir yfirferðar, sérstaklega að vetri til.
Meðgönguvernd
Ljósmæður starfa á sjö heilsugæslustöðvum umdæmisins og veita þar meðgönguvernd, það er á Djúpavogi, Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Egilstöðum, Seyðisfirði og Vopnafirði. Í umdæminu fá langflestar fjölskyldur þjónustu á meðgöngu hjá ljósmæðrum eingöngu eða í samvinnu við HSN eða LSH. Sónarskoðanir eru framkvæmdar í Neskaupstað, á Egilstöðum og Seyðisfirði.
Þegar um áhættumeðgöngu er að ræða, er haft samráð við HSN eða LSH og meðgönguvernd skipulögð í samráði við konurnar, fagfólk í héraði og fæðingalækna á ofangreindum stöðum. Eins hafa fæðinga- og kvensjúkdómalæknar frá HSN, móttöku á heilsugæslustöðvunum á Egilsstöðum og í Neskaupstað átta sinnum ári og er konum vísað þangað til samráðs eftir þörfum.
Alls eru um 5-10% kvenna vísað árlega á stofnun með hærra þjónustustig til samráðs eða aðgerða. Bráðaflutningur kvenna á meðgöngu með sjúkraflugi til HSN eða LSH er ekki algengur, eða um 4-5 sjúkraflug á ári. Algengasta orsök þess er hótandi fyrirburafæðing en einnig blæðingar á meðgöngu og alvarleg meðgöngueitrun.
Fæðingarhjálp
Eins og áður hefur komið fram er eina fæðingardeild umdæmisins staðsett á Umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað. Þar starfa að jafnaði fjórar ljósmæður sem sinna innlögnum vegna vandamála á meðgöngu, fæðingarhjálp, sængurlegu og aðstoð við brjóstagjafavandamál. Flestar konur sem fæða í umdæminu koma úr tveimur stærstu sveitarfélögum umdæmisins, Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði, eða um 80-90%. Um það bil 15-30% kvenna velja að fara út fyrir heilbrigðisumdæmið til að fæða börn sín, en þetta hlutfall er mjög breytilegt milli ára. Eins hafa konur frá Vopnafirði og norðar, sótt fæðingarhjálp til Akureyrar undanfarin ár, enda um svipað langan veg að fara.
Konum með áhættuþætti er vísað til fæðingar á LSH eða HSN Akureyri, um 5-10 %.
Konur sem eiga ekki þann valkost að fæða nærri heimili sínu þurfa sjálfar að standa straum af kostnaði við það, þ.m.t. húsnæði, launalaus leyfi maka og ferðalög maka og barna. Á Akureyri og í Neskaupstað er hægt að fá leigðar íbúðir ýmist á vegum sjúkrahúsanna eða félagasamtaka, þær eru hins vegar umsetnar og getur þurft að leigja sumarbústað eða íbúð hjá stéttarfélögum eða setjast að hjá ættingjum, í allt að mánaðartíma í kring um fæðinguna, með tilheyrandi raski á fjölskyldulífi.Sængurlega
Á HSA hefur öllum konum staðið til boða að liggja sængurlegu eftir fæðingu, þó hefur heimaþjónusta ljósmæðra aukist undanfarin ár. Þar sem heimaþjónusta ljósmæðra er í boði hafa árlega um 25-30% kvenna nýtt sér hana. Á flestum heilsugæslustöðvum umdæmisins sinna ljósmæður einnig ungbarnavernd. Endurinnlagnir mæðra og barna eru mjög sjaldgæfar, algengast er að nýburar séu innlagðir til ljósameðferðar vegna nýburagulu, 3-5 tilfelli á ári.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) starfrækir átta heilsugæslustöðvar og eru fæðingarstaðirnir tveir utan heimafæðinga, það er HSu Selfossi og Vestmannaeyjum. Þar bjóða ljósmæður einnig uppá skimanir fyrir leghálskrabbameini.
Meðgönguvernd
Ljósmæður veita meðgönguvernd á sjö heilsugæslustöðvum HSu, á Hellu, Hveragerði, Kirkjubæjarklaustri, Laugarási, Vík, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Samráð er haft við fæðingarlækna ef þörf er á. Ómskoðanir á meðgöngu eru gerðar á HSu á Selfossi.
Fæðingarhjálp
Fæðingardeildir HSu eru tvær, á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Þar geta allar hraustar konur í eðlilegri meðgöngu fætt, en konur með þekkta áhættuþætti eða vandamál á meðgöngu fæða á LSH. Einnig þær sem vilja eiga kost á mænurótardeyfingu í fæðingu.
Fæðingardeildirnar sinna göngudeildar- og símaþjónustu allan sólarhringinn þar sem vandamálum sem upp kunna að koma í barneignarferlinu er sinnt eða vísað á viðeigandi þjónustustig. Ljósmæður þar eru ráðgefandi fyrir samstarfsfólk þegar þörf er á. Í Vestmannaeyjum sinna ljósmæður einnig móttöku fyrir fórnarlömb nauðgana.
Á Selfossi er aðgerðardagur vegna kvensjúkdóma einu sinni í viku og sinna ljósmæður aðgerðarsjúklingum fyrir og eftir aðgerð. Einnig sinna þær bakvakt á öldrunardeildum sjúkrahússins á nóttunni vegna mikils niðurskurðar á stofnuninni.
Sængurlega
Á HSu Selfossi er sængurlega í boði fyrir konur sem ekki hafa aðgang að heimaþjónustu ljósmæðra í sinni heimabyggð og fyrir konur og/eða börn sem þurfa innlagnar við. Þær konur sem geta ekki fætt á HSu og þurfa að fæða á LSH eiga þess kost að liggja sængurlegu á HSu Selfossi eða þiggja heimaþjónustu ljósmóður til jafns á við þær konur sem fæða á HSu. Í Vestmannaeyjum er einnig í boði að liggja sængurlegu eða þiggja heimaþjónustu ljósmóður.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) starfrækir þrjár heilsugæslustöðvar í Grindavík, Reykjanesbæ og Vogum. Einn fæðingarstaður er í umdæminu og er hann á Ljósmæðravakt HSS í Reykjanesbæ.
Meðgönguvernd
Meðgönguvernd er veitt af ljósmóður í Grindavík og á ljósmæðravakt HSS í Reykjanesbæ. Ljósmæðravaktin sinnir einnig göngudeildar- og símaþjónustu sem flokkar og sinnir því sem viðbúnaður stofnunarinnar veldur og vísar ella á viðeigandi þjónustustig. Samráð er haft við fæðingarlækna LSH ef þörf er á.
Fæðingarhjálp
Á ljósmæðravakt HSS er ljósmóðir á vakt allan sólahringinn. Allar konur í eðlilegri meðgöngu sem vænta eðlilegar fæðingar geta fætt á ljósmæðravakt HSS. Konur með þekkta áhættuþætti eða vandamál á meðgöngu fæða á LSH. Einnig þær sem vilja eiga kost á mænurótardeyfingu í fæðingu.
Sængurlega
Konur sem fæða á HSS geta valið um að liggja sængurlegu eða þiggja heimaþjónustu frá ljósmóður sem aukist hefur mikið síðustu ár. Konur frá suðurnesjum sem einhverra hluta vegna fæða ekki á HSS, eiga þess kost að liggja sængurlegu á ljósmæðravakt HSS ef þær koma beint af fæðingardeild viðkomandi fæðingarstaðar, án viðkomu á meðgöngu- og sængurlegudeild. Einnig eiga þær konur þess kost að fara beint í heimaþjónustu sem er sinnt af ljósmóður í heimabyggð.
Ljósmæður sinna ungbarnavernd ásamt hjúkrunarfræðingum. Einnig er starfandi brjóstagjafaráðgjafi á heilsugæslunni í Reykjanesbæ sem veitir sérhæfða brjóstagjafaráðgjöf.
Listi yfir þjónustustaði á Íslandi
Höfuðborgarsvæðið
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins: 513-5000
22B Göngudeild mæðraverndar: 543-3253
22B Fósturgreining: 543-3256
22A Meðgöngu -og sængurlegudeild: 543-3220
23B Fæðingarvakt: 543-3049
Vökudeild: 543-3770
Göngudeild barna: 543-3700
Björkin: 567-9080, 664-9080 bjorkin@bjorkin.is
9 mánuðir: 533-3433 info@9manudir.is
Fæðingarheimili Reyjavíkur 5370660 info@faedingarheimilid.is
Læknavaktin 1700
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Ljósmæðravakt: 422-0542
Heilbrigðisstofnun Vesturlands
Kvennadeild Akranes: 432-1113
Borganes: 432-1430
Grundafjörður: 432-1350
Hvammstangi: 432-1300
Ólafsvík: 432-1360
Stykkishólmur: 432-1200
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
Ísafjörður: 450-4500, vaktsími ljósmóður: 860-7455
Patreksfjörður: 450-2000
Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Skiptiborð: 432-4600
Sauðárkrókur mæðravernd: 455-4022
Blönduós: 455-4100
Húsavík: 464-0500
Dalvík: 466-1500
Fjallabyggð: 460-2100
Sjúkrahúsið á Akureyri
Skiptiborð: 463-0100
Fæðingardeild: 463-0129, 463-0134
Heilbrigðisstofnun Austurlands
Neskaupstaður: 470-1450, vaktsími ljósmóður: 860-6841
Djúpavogur: 470-3090
Reyðarfjörður: 470-1420
Eskifjörður: 470-1430
Egilstaðir: 470-3000
Seyðisfjörður: 470-3060
Heilbrigðisstofnun Suðurlands
Skiptiborð: 432-2000
Fæðingardeild HSu Selfossi: 422-2200
Hella: 432-2700
Hveragerði: 432-2400
Kirkjubæjarklaustur: 432-2880
Laugarás: 432-2770
Vík: 432-2800
Þorlákshöfn: 432-2440
Vestmannaeyjar: 432-2500, vaktsími ljósmóður: 897-9620